Hvað felur leitarvélabestun í sér?

Leitarvélabestun þarfnast áætlunanar

Leitarvélabestun (e. Search Engine Optimization – SEO) er þegar haft áhrif á það hvernig leitarvélar á netinu raða upp niðurstöðum leitar, yfirleitt með það að markmiði að koma ákveðinni vefsíðu ofar í leit.

Með hvaða hætti þetta er framkvæmt fer eftir því hvaða leitarvél er verið að eiga við (t.d. Google, Bing, Yahoo o.sv.fr.), samkeppni á þeim markaði sem sótt er inná, hver markmiðin eru og svo mætti lengi telja.

Það er töluverður munu á því hvaða hvaða þættir stjórna niðurstöðum leitar hjá leitarvélunum Google og Bing. Leitarvélabestun getur því skilar góðum árangri í annarri vélinni en ekki hinni, og öfugt. Til að mynda liggja áherslur Google að mestu á hlekki (e. links) sem benda á ákveðið vefsvæði, gæði þeirra og tengsl þeirra við efnið sem fjallað er um. Á sama tíma leggur Bing miklar áherslur á vinsældir vefsíða í samfélagsmiðlum.

Google er með flesta notendur en margir telja að þeir séu með í kringum 60% markaðshlutdeild (Heimild: Searchenginejournal.com). Flestir leitarvélabesta því fyrir Google enda eru mun fleiri sem nota þá leitarvél en á sama tíma þýðir það meiri samkeppni um þau lausu pláss sem eru á fremstu síðu fyrir hverja leit en í flestum tilvikum eru tíu niðurstöður á hverri síðu.

Jafnframt er mikilvægt að átta sig á því að flestir, eða í kringum 34% smella á efstu niðurstöðu leitar, 16% á númer tvö, 11% á númer þrjú, 7% á númer fjögur og svo lækkar það töluvert því neðar sem farið er. T.d. fær efsta leit á annari síðu einungis um 1% þeirra sem leita að gefnu leitarorði (Heimild: Searchenginewatch.com).

Umferð-í-gegnum-GoogleÞetta þýðir það að ef 100 manns leita mánaðarlega að ákveðnu lykilorði, þá þarftu að vera númer eitt til þess að fá ca. 25 gesti þann mánuð frá þeirri leit. Ef síðan þín er ekki ekki inni á fyrstu síðu fyrir þá leit er líklegt að hún mjög fáar heimsóknir.

Þessar tölur eru auðvitað ekki heilagar þar sem margt getur ráðið því á hvaða niðurstöðu er smellt á og þar getur framsetning efnis, nafn léns og fleira skipt máli til þess að auka það.

Fyrir hverja er leitarvélabestun?

Leitarvélabestun er eitthvað sem allir geta nýtt sér til að þess að auka sýnileika þeirra í leitarvélum. Fyrirtæki sem vilja auka sýnileika vöru og þjónustu, einstaklingar sem vilja koma persónulegum heimasíðum á framfæri eða stofnanir sem vilja gera sína þjónustu sýnilegri sínum neytendahópi.

Þegar sóst er eftir því að gera vöru og þjónustu sýnilegri er oft mikil samkeppni á markaði þar sem önnur fyrirtæki sækjast einnig eftir því að auglýsa sínar vörur. Staðreyndin er sú að í dag hefur gríðarleg aukning orðið í bæði netnotkun og netverslun og því mun mikilvægara en áður að koma sér á framfæri fyrir framan þennan nýja hóp viðskiptavina.

Vandamálið sem margir standa frammi fyrir er vanþekking á því hvernig leitarvélabestun virkar, enda er leitarvélabestun mjög snúið og tæknilegt fyrirbæri sem fáir þekkja almennilega. Þá kostar leitarvélabestun bæði tíma og peninga sem fáir einstaklingar eða lítil fyrirtæki hafa efni á. Staðreyndin er hinsvegar sú að ef rétt er farið að hlutunum og sé horft til lengri tíma getur leitarvélabestun aukið tekjumöguleika fyrirtæki töluvert enda eykur vel heppnuð herferð bæði sýnileika og fjölda viðskiptavina mjög mikið.

Hvernig nær maður árangri í leitarvélum

Fyrsta skrefið til að ná árangri í leitarvél, er að skilja hvernig hún virkar og af hverju hún raðar niðurstöðum leitar upp með þeim hætti sem hún gerir.

Það eru margir þættir sem hafa áhrif á það hvort heimasíða er birt í leitarvél og þá hversu ofarlega. Þegar allt kemur til alls þá eru þeir sem leita í leitarvélum viðskiptavinir leitarvélanna og því mikilvægt fyrir leitarvélarnar að koma með bestu mögulegu niðurstöðu úr hverri leit. Þegar leit er framkvæmd í leitarvél á efsta niðurstaðan að vera sú besta, sú heimasíða sem svarar þeirri spurningu/þörf sem viðskiptavinurinn leitar eftir. Ef það er ekki tilfellið og niðurstöðurnar eru oftar en ekki slæmar, þá er líklegt að með tímanum færi sá viðsktiptavinur sig í aðra leitarvél – t.d. úr Google í Bing.

Það fyrsta sem skiptir því máli er að efnið á þeirri síðu sem kemur upp samrýmist þeirri leit sem gerð er, t.d. þegar leitað er eftir “leitarvélabestun” að þá komi upp síður sem tengjast því efni. Vandamálið sem leitarvélarnar standa frammi fyrir er að það eru fjölmargar síður sem fjalla um leitarvélabestun og því flókið fyrir tölvu að skera úr um hver þeirra er best – enda geta leitarvélarnar ekki lesið greinar og gefið huglæt mat á það hvað er best. Leitarvélarnar vinna því út frá flóknum reikniaðferðum (e. algorithm) til þess að komast að því hvaða niðurstaða er hentar hverri leit best.

Þessum þáttum má skipta í tvennt, það eru annarsvegar þeir þættir sem snúa að síðunni sjálfri og hvernig hún er skipulögð og vinnur – innri þættir (e. internal factors) – og hinsvegar þeir þættir sem eru utanaðkomandi – ytri þættir (e. external factors) – en snúa að þeirri síðu.

Mikilvægi innri og ytri þátta

Innri þættir

Það eru fjölmargir þættir sem koma hér inni sem möguleika hlaupa á hundruðum, vega þó mismikið. Það er ógerningur að koma inná þá alla en ég mun eftir fremsta megni reyna koma inná þá þætti sem skipta mestu máli.

Hvernig bregst notandinn við efninu?

Þegar Google sendir notenda inná síðu í gegnum leitarniðurstöður mælir Google fjölmarga þætti í því hvernig notandinn bregst við því efni sem er á síðunni.

  • Hversu lengi er gesturinn inni á síðunni?
  • Er efninu dreift á samfélagsmiðlum?

  • Er gesturinn nýr eða að koma aftur?

Því lengri heimsóknir sem síða fær því betra, það bendir þá til þess að efnið á síðunni sé gott og að þær nðurstöður sem Google/Bing gaf séu góðar. Ef gesturinn fer inná síðuna úr leitarniðurstöðu og fer strax út aftur (e. bounce) bendir það til þess að niðurstöðurnar séu ekki góðar. Ef slíkar heimsóknir eru tíðar – þ.e.a.s. að gesturinn „bounce-i“ – endar það með því að Google/Bing færir þá leit neðar í niðurstöðunum. Að sama skapi getur vinsæl síða sem er skoðuð lengi og margar flettingar eiga sér stað hækkað í niðurstöðum leitar. Að efni sé dreift og „lækað“ og að gestir komi aftur er einnig ábending um að efnið sé gott í augum leitarvélanna.

Það er því mjög mikilvægt að skrifa góðan texta, hafa myndir og nota myndbönd eins og mikið og hægt er enda lengja slíkir miðlar þann tíma sem fólk er inni á síðum.

Uppsetning efnis

Það eru margir sem halda því að það sé mikilvægt að skrifa fyrir leitarvélar, að slíkt auki líkurnar á sýnileika í leitarvél. Þetta er að mínu viti eitthvað það alvitlausasta sem ég hef heyrt og þó síðan gæti náð ágætum árangri til skamms tíma þá er þetta ekki eitthvað sem virkar til lengri tíma. Munum að Google mælir hvernig notandinn bregst við efninu, ef það er sett upp fyrir leitarvélar en ekki menn er ansi líklegt að alvöru fólk staldri stutt við.

Það sem er hinsvegar mikilvægt er að koma því lykilorði, eða orðum, fyrir á ákveðnum stöðum.

  • Titill

  • Fyrirsagnir

  • Vefstlóð (URL)

  • Texta

  • Myndir (alt tag)

Þegar maður skrifar grein um leitarvélabestun er eðlilegt að titill greinarinnar bendi til þess um hvað efnið sé, t.d. ef greinin fjallar um leitarvélabestun er fullkomlega eðlilegt að “leitarvélabestun” sé notað í titlinum, í fyrirsögnum, að myndir sé nefndar með orðinu og að þetta orð komi reglulega fyrir í textanum. Svo framarlega sem þetta er gert til þess að gera framsetningu efnisins skýrari fyrir notendann er það gott mál. Allt annað er hreinlega óþarfi.

Það er einnig mikilvægt að benda á mikilvægi þess að nota statíska vefslóð (e. static URL) frekar en dínamíska (e. dynamic URL) vefslóð og koma orðinu fyrir í vefslóðinni.

  • /greinar/leitarvelabestun-fyrir-byrjendur

  • /p.180$%_grein_180

Fyrri vefslóðin auðveldar bæði Google og notendanum að átta sig á því hvar hann er staddur á síðunni auk þess sem það tengist efninu. Þetta er afar mikilvægur þáttur sem óvenju margir klikka á þegar þeir setja vefi í loftið.

Hraði síðunnar

Hraði síðunnar getur skipt miklu máli fyrir bæði notendann og hvernig Google lítur á síðuna þína. Ef síðan þín er lengi að hlaðast (lengur en 3-4 sekúndur) eykur það líkurnar á því að notandinn fari af síðunni og finni efnið annarstaðar. Þetta hefur bæði þau áhrif á flettingar á síðunni þinni og þann tíma sem fólk eyðir inni á henni – sem aftur hefur áhrif á það hvernig Google lítur á síðuna þína.

Vægi þess hversu hröð vefsíða er hefur einnig aukist undanfarið og spilar nú stóran þátt í því að á góðum árangri í leitarvél. Til þess að sjá hvort síðan þín sé lengi að hlaðast er hægt að nota Pingdom.com sem segir þér meðal annars hvaða þættir það eru sem tefja hana og því hvaða þætti þarf að laga til þess að auka hraðann.

Ytri þættir

Eins og með innri þættina þá eru margir ytri þættir sem hafa áhrif á leitarniðurstöður en ekki er hægt að minnast á þá alla en ég mun koma inná þá þætti sem skipta mestu máli.

Fjöldi síða sem hlekkja á viðkomandi efni

Ef margar síður hlekkja á þetta tiltekna efni er það í raun atkvæði eða tillaga um traust á því efni. Flestir sem stunda leitarvélabestun er sammála því að þetta sé einn mikilvægasti þátturinn í því að ná árangri í leitarvélum, ef síðan þín er ekki með neina hlekki er líklegt að hún fái litlar sem engar heimsóknir.

Google hefur um árabil notast við að mæla það hversu traustar síður eru með því að gefa þeim einkunn frá 0-10 (e. Page Rank) sem benda til þess hversu traust síðan er, hversu gott efnið og fleira. Ef síða sem fær 10 hlekkjar á aðra síðu sem er með 0 er líklegt að 0ið breytist í 7 eða 8 fljótlega enda er síða með fullkomið traust að gefa annari síðu atkvæði og ólíklegt að góð síða gefi slæmri síðu sitt atkvæði, t.d. að mentastofnun hlekki á klámsíðu eða eitthvað þess háttar – allavega ekki viljandi. Þannig flæðir traust um allt internetið og síður gefa hvor annari atkvæði sem hjálpa Google að meta hvar síður eiga heima í leitarniðurstöðum fyrir hverja leit/lykilorð.

Þannig að ef síða A sem fjallar um “myndir af ketlingum” hefur hátt skor hjá Google og hlekkjar með orðunum “myndir af ketlingum” á síðu B sem hefur lægra skor en fjallar einnig um “myndir af ketlingum” aukast líkurnar til muna að sú síða muni ná betri árangri fyrir það lykilorð. Því fleiri sem hlekkja á síðu B því meira eykst traustið og þar með staðan í leitarniðurstöðunum.

Það eru þó fleiri leiðir en Page Rank til þess að meta traust síðu en nokkrir aðilar hafa komið með sitt eigið einkunnarkerfi sem getur verið afar gagnlegt til þess að meta hvort síða sé góð eða ekki. MajesticSEO er þjónusta sem segir til hversu marga hlekki síður hafa og hversu góðir þeir hlekir eru, hvort þeir séu “sterkir” eða “veikir” og hvort þeir hafi þá lítið eða mikið traust. SEMoz er önnur þjónusta sem notar svipaðar aðferðir til þess að gefa til kynna hvort síður séu traustar eða ekki.

Saman má notast við þessar þrjár aðferðir til þess að meta hversu mikil samkeppni ríkir á ákveðnum mörkuðum og fyrir ákveðin lykilorð. Mikilvægasta notagildið er þó það að segja okkur nákvæmlega hvað heimasíða þarf til þess að ná árangri fyrir það lykilorð.

Hýsing og ending léns

Hýsing getur skipt máli, þó ekki höfuðmáli, þegar síða er leitarvélabestuð. Þar skiptir mestu hraði og staðsetning. Ef notast er við lélega og ódýra hýsingu sem er ótraust er hætt við því að síðan þín verði hæg. Einnig getur staðsetning hýsingarinnar skipt máli en ef Google.com (s.s. bandaríkjamarkaður) er leitarvélabestuð er betra að hýsa einnig síðuna í Bandaríkjunum.

Ending léns er mjög mikilvæg en .com .net og .org eru lang vinsælustu lénin sem hægt er að notast við sama í hvaða landi viðkomandi síða ætlar sér árangur í – enda alþjóðleg lén. Þá er hvert land með sína sérendingu sem – .is á Íslandi – virkar mjög vel í hverju landi fyrir sig en síður inná alþjóðlegan markað eða inná önnur lönd. T.d. virkar það ekki sérstaklega vel að nota .is og ætla sér að ná árangri í Google í Bandaríkjunum eða í Svíþjóð.

Niðurstaða

Eins og sjá má er leitarvélabestun flókið ferli þar sem margir þættir hafa áhrif á það hvernig niðurstöðum leitar er raðað. Að skilja ferlið sem á sér stað er mikilvægt fyrsta skref þegar vefsíða er leitarvélabestuð og leggur grunn að betri árangri í leitarvélum.

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>